Útsýnisskífa

Útsýnisskífa á Álfaborg.

Átthagafélag Borgfirðinga í Reykjavík gaf 1979 hringsjá sem stendur uppi á Álfaborginni. Góður stígur er þangað upp. Á skífunni má sjá m.a. fjallanöfnin og hún er einnig sólúr. Álfadrottning Íslands býr í Álfaborg. Fjöldi sagna um samskipti álfa og huldufólks í borginni eru til, m.a. um stúlkur er giftust íbúum Álfaborgar og um konur sem þar bjuggu og höfðu samskipti við fólk í byggðarlaginu. Ein þeirra hafði m.a. áhrif á það hvar kirkjan var staðsett þegar hún var flutt frá Desjarmýri út í þorpið í byrjun 20. aldarinnar.

 

Útsýnisskífa á Gagnheiði

Við jeppaveg til Breiðuvíkur. Ferðamálahópur Borgarfjarðar reisti skífuna 1999. Mjög gott útsýni er þaðan yfir Borgarfjörð, Brúnavík og Breiðuvík. Á skífunni eru grafnar útlínur landsins og inn sett helstu örnefni þeirra staða er sjást frá henni. Þetta er ein af fáum útsýnisskífum á landinu sem eru úr steini en hún var unnin í Álfasteini.