Víknaslóðir

Víknaslóðir ná frá Héraðsflóa í norðri til Seyðisfjarðar í suðri. Hér er fjöldi áhugaverðra, vel merktra og stikaðra gönguleiða við allra hæfi, bæði stuttar leiðir fyrir alla fjölskylduna og lengri leiðir fyrir „fullorðna“. Aðgengi er mjög gott svo og allur aðbúnaður. Öflug þjónusta hefur byggst upp á svæðinu, svo sem góð tjaldstæði, fjölbreytt gisting, veitingar, söfn, leiðsögn, aðstoð við skipulagningu gönguferða og flutningar á fólki og farangri. Ferðamálahópur Borgarfjarðar hefur gefið út vandað göngukort af svæðinu í samvinnu við Seyðfirðinga og Héraðsbúa. Kortið fæst víða á svæðinu og einnig hjá Ferðafélagi Íslands, Mörkinni 6 í Reykjavík.

Heimasíða Ferðamálahópsins www.borgarfjordureystri.is geymir ýmsar upplýsingar um svæðið, tillögur að ferðum og göngukort, ásamt fjölda mynda. Þar er líka þjónustulisti, söngtextar, álfa- og vættasögur, fornsögur, örnefnaskrá hreppsins og ýmis annar fróðleikur. Til að ferðast um Víknaslóðir, gangandi eða akandi, er æskilegt að verða sér úti um vandað göngukort af svæðinu, útgefið af Ferðamálahópnum á Borgarfirði.