DYRFJÖLL

Grein skrifuð í Snæfell - 2000 Helgi M. Arngrímsson.

Dyrfjöll má kalla konung borgfirskra fjalla en þó greinir menn oft á um hvort t.d. Staðarfjall eða Dyrfjöll séu fallegri. Ég tel þó að flestir geti verið sammála um að Staðarfjall er litfegurra en Dyrfjöllin tígulegri en þetta er hlutlægt mat hvers og eins.

Dyrfjöll eiga sér fjölda ásýnda og þar greinir menn einnig á um hver sé fegurst. Við sem búum á Borgarfirði vitum öll að sú hlið sem snýr að okkur er sú fegursta en svo eru til einstaka menn á Héraði sem telja að sú hlið sem þangað snýr sé fegurri. Þá eru til þeir Héraðsbúar sem telja að "réttan" á fjöllunum snúi að Héraði en að sjálfsögðu vaða þeir í villu því Borgarfjarðarhliðin er "réttan" á fjöllunum, annað kemur ekki til greina. Að þessum formála slepptum langar mig að taka ykkur með í gönguferð réttsælis meðfram Dyrfjöllum og við hefjum ferðina að sjálfsögðu réttu megin við þau. Þegar nefnt er hægri eða vinstri er miðað við að horft sé til fjallanna.Örlítið hefur verið á reiki í seinni tíð með nöfn fjallanna. Þó er yfirleitt talað um Innra-Dyrfjall vinstra megin dyra og tindurinn sem er hægra megin, næst þorpinu, Ytra-Dyrfjall. Hann er einnig oft nefndur Dyrfjallstindur.

Í örnefnaskrá, frá sjötta áratugnum, eftir Eyjólf Hannesson, er hlutinn milli þessara tinda, þ.e. hægra megin við dyrnar, kallað Miðfell-Dyrfjallanna. Það er sjaldan notað en er gott nafn og full ástæða til að halda því á lofti. Efst á þeim tindi er klettastrýta sem heitir Borgir og er hún hæsti hluti fjallanna, 1136 m.Dyrfjöllin eru talin hafa myndast sem askja, þ.e. að gosið hefur í vatni sem myndast hefur í gífurlegu sprengigosi, líkt og Askja og Öskjuvatn eru í dag. Háir móbergsstapar sjást allsstaðar undir fjölda reglulegra basaltlaga sem hægt er að rekja saman milli tindanna. Ísaldarjökullinn hefur svo nuddað sér utan í öskjuna og náð að mynda og móta þetta einstaka form sem er á Dyrfjöllum í dag. Borgarfjarðarmegin við Dyrnar er æði mikill dalur sem heitir Jökuldalur. Hann endar hægra megin upp undir Ytra-Dyrfjalli og þar, upp við klettastálið, er talsverður jökull sem dalurinn ber nafn sitt af. Hann nær einnig upp í átt til dyranna.Syðst við Innra-Dyrfjall er hömrum girtur smádalur eða krókur sem heitir Dimmidalur. Þar og raunar í Jökuldalnum líka, búa álfar og huldufólk. Hér var líka í minni æsku talið að Grýla ætti heima með allt sitt lið og enn þann dag í dag koma þaðan skemmtilegir rauðklæddir karlar um jól og áramót.

Nokkuð er um að menn gangi á Dyrfjallstindinn. Þangað upp er nokkuð greið leið en bratt efst. Misjafnt er hvar menn hefja gönguna en m.a. er hægt að ganga upp í átt að Jökuldalnum og halda þaðan út raðirnar en einnig má fylgja merktri gönguleið upp með Grjótá, upp í Grjótdal, og þaðan upp á Jökulsárups og síðan beint á tindinn. Sérkennilegur berggangur eða öllu heldur göng eftir berggang eru í gegnum þykkt basaltlag ofarlega í fjallinu. Það auðveldar mjög gönguna að fara þessi göng og losna þannig við að klöngrast klettana. Efnið í þessum berggangi er linara en basaltlögin og hefur því myndað þessa rennu gegnum hamrabeltin. Auðvelt er að finna rennuna því hún blasir við þegar komið er upp undir klettabeltin. Á tindinum er hlaðin varða og þar í er flaska sem menn setja gjarnan miða í með nafni sínu.Nokkrir hafa klifið hæsta tindinn, sem er á Miðfellinu. Ef hann er klifinn er best að fara yfir jökulinn hægra megin við Dyrnar og þar upp á klettana og halda svo upp aflíðandi sveig upp á toppinn. Leiðin upp er tiltölulega greið en varast þarf þó sprungur í jöklinum og eins myndast gjá upp milli jökuls og kletta svo hættulegt getur verið seinni part sumars að reyna að stökkva þar yfir. Þegar upp er komið blasir við frábært útsýni yfir Borgarfjörð, Úthéraðið, norður á Langanes og inn á Öræfi. Hér upp hafa ekki margir komið en fyrstir komu hér þeir Jón Sigurðsson og Sigmar Ingvarsson árið 1953. Þeir voru forsjálir og höfðu með sér koparplötur með ígröfnum nöfnum sínum þannig að þau mást ekki út meðan gestabókar-flaskan verður hér. Um Dyrnar sjálfar er stundum farið. Nokkuð gott aðgengi er að þeim frá Héraði en örðugt getur verið að fara niður Borgarfjarðarmegin en þar gæti þurft að fara um brattar fannir eða jökul að hluta. Ekki er ráðlegt að fara þetta nema kynna sér vel aðstæður fyrirfram og hafa með sér ísöxi eða annað til að grópa för í jökulinn.

Borgarfjarðarmegin við Dyrfjöllin hafa stórir kögglar úr móberginu borist um allan Jökuldalinn og einnig niður á láglendið milli bæjanna Jökulsár og Hvols. Það svæði heitir Strípahraun efst en Hvolsraun neðar. Lobbuhraun heitir svo neðsti hluti þess, næst Jökulsá en Lobba þessi var tröllskessa sem þar bjó. Í þessum hraunum er líka mikil álfa og huldufólksbyggð. Ef við höldum áfram meðfram Dyrfjöllum réttsælis þá komum við að Tindfelli. Má í raun segja að þau séu innsti hluti fjallana því þau taka við í beinu framhaldi af Innra-Dyrfjallinu og mynda þannig hluta af Dimmadal sem áður er getið. Syðsti hluti Tindfells heitir Kambur. Sennilega ber fjallið nafn af honum því á Kambi er fjölda tinda sem talið er að sé tröllafjölskylda Öll hafi þau orðið að klettadröngum þegar sólin kom upp í austri. Það styður þessa sögu að tvær áberandi stærstu strýturnar eru svolítið til hliðar en þær litlu standa eins og í halarófu á eftir þeim. Við höldum nú áfram "inn fyrir" og beygjum til hægri, upp í Eiríksdalsvarp. Hér var algengt að Borgfirðingar færu um áður fyrr ef þeir ætluðu á Úthérað.

Vinstra megin við Eiríksdalsvarp er Grjótfjall og þá koma Sandaskörð en um þau lá leiðin ef fara átti á Upphérað. Hér um liggur nú raflínan og ljósleiðarinn til Borgarfjarðar.Ef við lítum til Dyrfjalla frá Eiríksdalsvarpi þá sést glögglega að þau hafi myndast sem askja. Dr. Lúðvík E. Gústafsson, jarðfræðingur, hefur talsvert rannsakað þetta svæði og doktorsritgerð hans frá 1992 "Geology and Petrography of the Dyrfjöll Central Volcano, Eastern Iceland" var einmitt um Dyrfjallaeldstöðina. Hann hefur sýnt fram á að hér liggja saman tvö fjöll, annars vegar móbergsstapar Dyrfjalla og svo fjallið sem liggur út á Lambamúlann. Það fjall er eldra og berglögin í því eru í engum tengslum við berglögin og móbergið í Dyrfjöllum. Þarna mætast því tvö óskyld fjöll en jökullinn hefur sorfið í burtu mest af öskjubörmunum og hluta af öskjunni en þetta stendur eftir og hjálpar okkur aðeins að skilja þá ógnarkrafta sem hér hafa verið að verki, fyrst eldgosin og síðar ísinn - þ.e. eldur og ís sem mest hafa mótað landið okkar frá því það tók að myndast í árdaga.

Við höldum nú þvert fyrir botn Eiríksdals um Tröllabotna og upp á Lambamúla sem er milli hans og Stórurðar. Þegar upp á Múlann er komið blasa Dyrnar við okkur. Hér eru Dyrfjöllin tiltölulega regluleg og formföst. Vinstra megin við Dyrnar eru háir klettaveggir en hægra megin er talsverður jökull sem nær alveg upp undir klettana.Um miðja tuttugustu öldina klifu þrír menn héðan upp á innri "dyrastafinn". Það voru þeir Jóhann Ólason, Steinþór Eiríksson og Vilhjálmur Einarsson frá Egilsstöðum og ritar Vilhjálmur um ferðina í ævisögu Steinþórs, "Magisterinn". Um ferðina segir hann m.a. að við bergið hafi jökullinn þiðnað það mikið að um meters gjá hafi verið. Uppgangan gekk vel "án nokkurra fjallaklifurkúnsta". Og þá skrifar Vilhjálmur: "Og hvílíkt útsýni!" Sínu erfiðara var fyrir þá félaga að fara niður eins og oft vill verða en ferðin gekk þó án nokkurra óhappa. Þeir félagar gistu tvær nætur hér við rætur tindsins en sennilega hefur urðin heitið Hrafnabjargarurð þá en í dag gengur hún undir nafninu Stórurð. Stórurðar-nafnið hefur festst við hana á síðustu áratugum og lítið hefur verið gert í að leiðrétta það.Stórurð er líkust framhlaupi frá Dyrfjöllum, líkast því að efnið úr dyrunum hafi molnað niður og runnið fram dalinn. Lúðvík og ýmsir aðrir jarðfræðingar telja hinsvegar að urðin hafi myndast þannig að þegar jökullinn skrapaði fjallið utan þá hafi molnað úr því ofan á jökulinn sem síðan hafi skriðið fram og flutt með sér klettablokkirnar. Þannig hafi jökullinn bæði náð að skrapa til þennan dal og um leið að mynda þessa einstöku náttúruperlu sem á fáa sína líka.

Hingað eru merktar fjórar gönguleiðir, þ.e. frá Skeggjakletti í Ósfjalli, af Vatnsskarði, þessa leið sem við komum yfir Eiríksdalsvarp og frá Borgarfirði um Grjótdalsvarp og Mjóadalsvarp. Krossgötur eru neðst í Stórurðinni en merkta leiðin yfir hana er þar yfir sléttan og skjólgóðan bala sem lítil jökulá rennur um. Hún rennur norðan við urðina en sunnan við hana rennur falleg bergvatnsá. Gönguleiðin upp Urðina er skammt frá henni. Urðin er mjög stór og þar er margt að sjá. Hægt er að finna þar skjólgóða stóra hellisskúta og ganga um raufir milli kletta sem eru margir metrar á hæð. Nokkrar blágrænar tjarnir eru milli klettanna og inn á milli eru rennisléttar grundir. Þeir sem hingað leggja leið sína lifa á því í mörg ár og gildir í raun einu hvernig veðrið er en að sjálfsögðu er best að koma hér í sól og blíðu því ægifegurð Dyrfjalla sem gnæfa hér yfir er slík að það lætur engan ósnortinn.

Við höldum nú áfram upp á Mjóadalsvarp áleiðis til Borgarfjarðar. Af Mjóadalsvarpi er gott útsýni yfir Stórurð og Mið-Héraðið og héðan sést vel til Herðubreiðar. Við höldum svo eftir stikaðri leið út með hlíðum Dyrfjalla efst í Dyrfjalladal. Vert er að vekja athygli á móbergshömrunum upp frá Mjóadalsvarpinu. Þar uppi í klettasprungu er skorðaður stór hnullungur, tugir tonna að þyngd. Þetta sést ekki nema í vissu sjónarhorni þegar komið er að mikilli malarurð.Áfram er haldið í átt að Efra-Grjótdalsvarpi. Njarðvíkurmegin við varpið er Urðardalur sem svipar nokkuð til Stórurðar nema mikið minni. Hér liggur ágæt óstikuð gönguleið niður í Njarðvík.

Í Efra-Grjótdalsvarpinu er sérkennilegur klettarani sem nær frá Dyrfjallinu út í varpið. Þetta er örþunnur berggangur, sem er eins og risavaxið hnífsblað og þrengir að skarðinu. Í skarðinu er ljós bergtegund, ignimbrít eða líparítaska sem orðin er að flögugrjóti. Þetta hefur myndast í gífurlegu sprengigosi, áður en Dyrfjöllin mynduðust og svo hefur jökullinn sorfið hér ofan af þegar hann skrapaði utan af öskjunni. Eins ignimbrít var á leið okkar rétt eftir að komið var upp úr Mjóadalsvarpinu, upp við Dyrfjallið. Við höldum nú niður Grjótdal eftir merktri gönguleið og komum niður skammt innan við Bakkagerði, þéttbýliskjarnann í Borgarfirði.

Ég vona að þið lesendur hafið notið ferðarinnar en aldrei er hægt að koma öllu sem maður hefði viljað í svona stutta grein eins og t.d. tengsl Kjarvals við fjöllin og margt fleira. Það eru skipulagðar ýmsar gönguferðir á Borgarfjarðarsvæðinu sem við í Ferðamálahópi Borgarfjarðar höfum kosið að kalla í heild sinni Víknaslóði.Hvernig væri nú að reima á sig skóna, axla pokann og bregða sér á Víknaslóðir. Ferðamálahópurinn hefur gefið út í samvinnu við Seyðfirðinga vandað göngukort af svæðinu og fæst það víða. Þá hefur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs byggt tvo glæsilega gistiskála í Breiðuvík og Húsavík.